Af Silfurgarði
Hitt og þetta um áhugaverð og athyglisverð efni


09.11.2011 09:05

Gríman féll

Svo skelfilegt sem það var að hlusta og horfa á Guðrúnu Ebbi lýsa ofbeldi föður síns fyrir Þórhalli í sjónvarpsviðtali, var það hreinlega sorglegt að hlýða og horfa á bróður hennar, sr. Skúla Ólafsson, í kastljósinu í fyrrakvöld. Þarna var allur pakkinn; umhyggja fyrir móður þeirra og miðsysturinni, ást á Guðrúnu Ebbu og staðhæfingin um að lýsing hennar á fjölskyldulífinu væri ekki í samræmi við það sem þau hin upplifðu. En auðvitað væri Guðrún ekki að skrökva; hún væri að lýsa ímyndaðri upplifun. Og sr. Skúli vitnaði í sálfræðinga máli sínu til stuðnings.

Hér er kannski rétt að hafa í huga að Skúli er tólf árum yngri en Guðrún Ebba. Hann upplifði því áreiðanlega ekki þessa tíma; hann var mestanpart ekki til, síðar svo ungur að hann hefur varla skynjað mikið af umhverfi sínu.

Reyndar verkaði sr. Skúli nánast einlægur í máli sínu þegar hann ræddi um þá skelfilegu upplifun sem hann, móðir hans og systir hefðu upplifað í framhaldi af uppljóstrunum Guðrúnar Ebbu. Hér skal svo sannarlega ekki reynt að gera lítið úr því. Til dæmis hlýtur líðan móður þeirra að hafa verið skelfileg í gegnum allt það fárviðri sem yfir fjölskylduna hefur dunið.

En gríman féll, þegar Sigmar spyrill spurði um þær konur aðrar sem ákærðu Ólaf Skúlason um kynferðislegt ofbeldi. Þá var reynt að gera lítið úr athæfi prestsins. Eiginlega skellt í góm. Hann hefði kannski verið kvensamur, en það hefði eiginlega ekki verið neitt alvarlegt; bara smásvona snerting. Sama með fermingartelpur.

Þarna, undir lok viðtalsins, féll gríman. Við strákarnir erum bara svona, smásvona snerting, ekkert alvarlegt eða til að hafa áhyggjur af.

Trúverðugleiki prestsins hvarf eins og dögg fyrir sólu.
Flettingar í dag: 54
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 189679
Samtals gestir: 53993
Tölur uppfærðar: 5.3.2021 06:36:49