Af Silfurgarði
Hitt og þetta um áhugaverð og athyglisverð efni


23.09.2014 10:50

Kveðjustund

Þessi öðlingur, stjúpi minn til 66 ára, lést 14. september sl. Hann hafði ekki hátt um sjálfan sig eða sína meðan hann lifði og hann kvaddi hljóðlega eftir hjartaáfall, umkringdur börnum og barnabörnum. Þá var ég staddur í fjarlægu landi.

Í minningunni er það svo að Haraldur Örn Sigurðsson, klæðskerameistari, kom með menninguna í líf mitt þegar hann kvæntist móður minni. Þá var ég fimm ára. Hann kom með urmul bóka af öllu tagi, skáldsögur, ævisögur og ljóðabækur. Allar þessar bækur urðu mér, barninu, óendanleg freisting og flýttu mjög fyrir því að næði tökum á listinni að lesa. Ég man að fyrstu tvær bækurnar sem ég las voru Móðirin eftir Maxim Gorki og Æskuár mín á Grænlandi eftir Peter Freucen. Skildi örugglega ekki allt en gat alltaf spurt. Ljóðskáldin voru þarna flest; Tómas, Steinn og Jónas.

Grammifónninn kom líka með mörgum 78 snúninga plötum, mest klassísk tónlis; Beethoven, Dvorak og aðrir meistarar. Ég man hann ýmist hallandi sér aftur í sófanum og hlusta með lokuð augu á verkin á hæsta styrk. Sveiflaði höndum eins og hann stjórnaði þessu öllu. Eða lá á bakinu á gólfinu; maður sá næstum tónana fara inn um eyrun, um líkamann og út í alla limi. Nautnin var algjör.
Nú er hann farinn, níræður að aldri, farinn heilsu og kröftum. Ekkert eftir nema kveðja. Blessuð sé minning Haraldar Arnar Sigurðssonar.

 
Flettingar í dag: 165
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 514
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 299260
Samtals gestir: 42647
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 15:23:13


Tenglar